Guðsþjónustur

Samfélag í trú og gleði
Þegar við göngum til guðsþjónustu erum við hluti af samfélagi sem í yfir tvö þúsund ár hefur leitt kristið fólk í gegnum lífið, hjálpað því í erfiðleikum og aukið því gleði og lífsþrótt. Í samfélagi guðsþjónustunnar getum við dýpkað vitund okkar fyrir því hver við erum, hvaðan við komum og hvert við stefnum í lífi okkar.

Tökum virkan þátt í guðsþjónustunni

Samfélag við Guð
Guðsþjónustan er trúarsamfélag. Hún er samfélag við Guð og annað fólk. Trú kirkjunnar tengir okkur saman hvort sem við efumst eða trúum, glímum við áhyggjur eða syngjum af fögnuði. Bænir okkar og söngvar fá styrk af því samfélagi. Í guðsþjónustinni erum við líka hluti af ennþá stærra samfélagi en við sjáum í kirkjuhúsinu. Sömu bænir og sömu orð hafa fylgt hinum kristnu allt frá dögum Jesú til okkar tíma. Við biðjum Faðir vor með orðum Jesú sjálfs og lesum sömu ritningartexta og Jesu las úr Gamla testamentinu. Hluti af helgihaldi altarisgöngunnar á rætur sínar í frumkristni. Við notum sömu orð og hafa fylgt kristinni guðsþjónustu í yfir 2000 ár. Við iðkum trú okkar í guðsþjónustinni. Sú iðkun byrjar í loforðum Drottins um að vera nálægur í því sem gerist. Guðsþjónustan er að koma fram fyrir augliti hins heilaga Guðs. Bæn, söngur og talað orð guðsþjónustunnar bera hljóm eilífðar inn í tilveru okkar. Þögnin á líka sinn sess í guðsþjónustunni. Í kyrrð og þögn getum við heyrt rödd Guðs tala til okkar. Á 6. öld kristni komst á sú meginhefð að láta kirkjur snúa austur vestur. Þá er altarið við austurvegg. Það táknar að eins og sólin rís að morgni og rekur burt myrkur næturinnar, eins kemur Kristur, ljós heimsins, og sigrar myrkur syndar og dauða.

Guðsþjónustan er heild
Atferli prests og safnaðar hefur allt sína merkingu í messunni. Þannig sýnum við guðspjallinu virðingu með því að standa upp þegar við lofsyngjum Guði. Presturinn snýr sér að altarinu þegar hann ber bænirnar fram fyrir Guð en frá altari þegar hann flytur orð Guðs og blessun til safnaðarins.

Messuupphaf
Í upphafi guðsþjónustunnar signum við okkur og minnumst að við tilheyrum Kristi og samfélagi kirkju hans. Við tökum undir miskunabænina: Drottinn miskuna þú oss. Það er bæn Bartimeusar og holdsveiku mannanna sem mættu Jesú Kristi og báðu um hjálp hans og liðsinni á göngu lífsins. Guð svarar ákalli okkar. Hann sendi son sinn til jarðarinnar og mætir okkur í Kristi. Við tökum undir lofsöng englanna frá Betlehemsvöllum: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum.

Þjónusta orðsins
Vitnisburður Biblíunnar er lesinn. Venjulega eru lesnir þrír ritningarlestrar. Fyrri ritningarlestur eða lexían er úr Gamla testamentinu, síðari ritningarlestur eða pistillinn er úr postulasögunni í Nýja tesatamentinu og síðan er guðspjall dagsins lesið. Við tökum undir vitnisburðinn með því að játa trú okkar. Í predikuninni er lagt út frá orði ritningarinnar og það heimfært á okkar aðstæður. Eftir predikun er hin almenna kirkjubæn. Í henni berum við fram bænir okkar fyrir, heiminum, landi og þjóð, sjúkum og nauðstöddum. Þar eiga bænir okkar fyrir öllu því sem á okkur hvílir einnig heima.

Þjónusta borðsins
Kristið fólk hefur komið saman og neytt brauðs og víns, eins og Kristur bauð, frá árdögum kristni til okkar tíma. „Gjörið þetta í mína minningu“ sagði Jesú við lærisveina sína. Í brauðinu og víninu tökum við á móti hinum lifandi Jesú sem dó og reis upp frá dauðum fyrir okkur. Hann er okkur nálægur á sérstakann hátt og gefur okkur styrk og kraft. Þó trú okkar sé veik getum við rétt út hendurnar og þegið það sem Kristur hefur að gefa okkur. Máltíð Drotins er leyndardómur sem við skiljum aldrei til fulls en fáum að taka þátt í og njóta. Undirbúningur að máltíð Drotins hefst með því að við játum syndir okkar, biðjum fyrirgefningar Guðs og lýsum sátt og friði milli okkar. Presturinn rifjar upp orð Krists þegar hann braut brauðið með lærisveinum sínum og helgar um leið brauð og vín. Við biðjum sem borðbæn Faðir vor og biðjum Jesú, Guðs lambið sem ber syndir heimsins, að miskunna okkur. Við göngum til altaris í lotningu og virðingu. Þegar brauðsins og vínsins hefur verið neytt er góð venja að signa sig og lúta höfði áður en gengið er til sætis. Aftast í sálmabókinni eru bænir til að fara með undir altarisgöngu. Allir sem eru skírðir og játa trú á Jesú Krist geta tekið þátt í altarisgöngunni.

Útsending
Áður en við göngum úr kirkju þyggjum við blessun Guðs til þjónustu í heiminum. Presturinn lýsir blessun með upplyftum höndum sem tákn um að hann leggi hendur yfir söfnuðinn. Til forna endaði guðsþjónustan á orðunum „lte, missa est“ sem þýðir „Farið, þið eru send út“. Af orðinu „missa“ er dregið orðið messa. Við erum send með áhrif guðsþjónustunnar út í hversdagsleikann. Við erum send með fyrirgefninguna, kærleikann og blessunina sem guðsþjónustan tjáir út í okkar daglega líf.

Fortíð, samtíð og framtíð
Fyrstu lærisveinar Jesú komu saman í heimahúsum. Játning þeirra var að Jesú væri Kristur, lausnarinn sem gyðingar höfðu vænst um aldir. Hin fyrstu krisnu komu saman fyrsta dag hverrar viku, upprisudag Jesú Krists, sögðu sögurnar um Jesú og lásu úr Gamla testamentinu sem þau þekktu úr samkunduhúsunum og bréfum postulanna. Það sem var sérstakt við samkomurnar var máltíðin við Guðs borð sem Jesú stofnaði. Máltíðin var einnig þáttur í því að deila kjörum hvert með öðru og sjá til þess að enginn liði skort. Helstu þættir messunnar voru komnir í núverandi farveg þegar á 2. öld eftir Krist, það er að segja söngurinn, lestur ritninganna og guðspjallsins, máltíðin við Guðs borð og blessunin. Í aldanna rás hefur guðsþjónustan þróast og breyst en þar má samt finna merki um upprunarlega þætti.  Í tónum helgihaldsins heyrum við stundum hljóma sem hafa ómað í kirkjunni í meira en þúsund ár.

KIRKJAN ER HELGISTAÐUR, hús sem er frátekið fyrir hinn heilaga Guð þar sem fólk getur gengið til fundar við hann og mætt honum á sérstakan hátt.

HEILÖG ER SÚ STUND sem teki er frá fyrir Guð, til að minnast hans, hlusta á hann og þiggja það sem Guð vill gefa okkur. Þegar við göngum til guðsþjónustu fáum við tækifæri til að njóta og til að gefa af okkur.Í guðsþjónustunni erum við öll mikilvæg. Við tökum undir bænir og messusvör og þegar við sameinumst í söngnum tjáum við trú okkar í gleði og sorg.

BÖRN ERU HJARTANLEGA VELKOMIN Í MESSU. Stundum missa þau þolinmæðina og láta í sér heyra … það er allt í lagi. Oft verða þau óróleg ef þau eru skikkuð til að sitja kyrr allan tímann. Betra er að bregða sér fram með þau eða leyfa þeim að ganga um svo framarlega sem þau trufla ekki aðra. Barnastarf – sunnudagaskóli er í flestum messum og hefst það að lokinni trúarjátningunni, þ.e fyrir predikun.

MESSUFORMIÐ ER AÐ FINNA FREMST Í SÁLMABÓKINNI.

TÖKUM UNDIR MESSUSVÖRIN og bænirnar og syngjum með í sálmunum hvert með sínu nefi. Þegar við tökum virkan þátt í guðsþjónustunni og iðkum trúna þá öðlast hún dýpri merkingu í lífi okkar og hefur meiri áhrif á tilveru okkar.