Grein formanns í safnaðarfréttum jan 2012

Óháði söfnuðurinn hefur verið afar farsæll í störfum sínum á þeim rúmu sextíu árum sem hann hefur verið starfandi. Sóknarbörnum fækkaði reyndar svo mjög á sjöunda áratug síðustu aldar að rekstur safnaðarins stefndi orðið í óefni en á attunda áratugnum tókst að snúa vörn í sókn og hefur safnaðarfélögum fjölgað nánast stöðugt síðan þá. Séra Pétur á stærsta heiðurinn af þessum viðsnúningi og verður honum seint fullþökkuð sú elja og sá dugnaður sem hann hefur lagt á sig fyrir söfnuðinn.

Á aðalfundi safnaðarins sl. vor var í fyrsta sinn kosið til stjórnar samkvæmt  nýju lögunum sem samþykkt voru á aðalfundinum árinu áður, sú breyting fól meðal annars í sér fækkun stjórnarmanna úr tólf í níu. Undirritaður varð þess heiðurs aðnjótandi að vera kosinn formaður safnaðarstjórnarinnar og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka það traust sem söfnuðurinn sýnir mér með því.

Óneitanlega fylgja nýjum mönnum örlítið breyttir stjórnunarhættir og á þeim mánuðum sem ég hef gengt þessari trúnaðarstöðu fyrir söfnuðinn hef ég lagt mikla áheyrslu á styrka fjármálastjórn og skipulagða verkaskiptingu innan stjórnarinnar. Að mínu mati hefur það hingað til gengið vel en slíkt gengur auðvitað ekki upp nema með góðri samvinnu þeirra sem í stjórninni sitja.

Ég verð að segja að það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna með því góða fólki sem situr með mér í stjórninni að ógleymdum þeim séra Pétri og Árna Heiðari. Þar vinna allir sem einn maður að framgangi þeirra mála sem stjórnin vinnur að hverju sinni. Samstaðan og vinnusemin er til eftirbreytni og augljóst að allir sem þar koma að bera hag safnaðarins og kirkjunnar fyrir brjósti. Það er mín von að hinn góði andi sem ríkir á meðal stjórnenda skili sér til safnaðarmeðlima.

Stjórn Óháða safnaðarins sendir ykkur öllum bestu óskir um að það ár sem nú gengur í garð verði ykkur  gott og farsælt um leið og hún þakkar ykkur öllum samstarfið á því sem er að líða, Guð blessi ykkur.

Eiður Haraldsson.