Jólahugleiðing Davíðs Þórs Jónssonar

Jólahugleiðing  Davíðs Þórs Jónssonar á aðventukvöldi 11. des 2011.

Þá eru blessuð jólin í nánd, einu sinni enn. Hátíð ljóss og friðar þegar við, kristnir menn, fögnum fæðingu frelsara okkar. Þetta höfum við gert frá alda öðli, ekki bara kristnir menn, heldur allir menn.

Jólahátíðin á sér mun lengri sögu en kristindómurinn. Orðið sjálft, „jól“, er hundheiðið og svo fornt að fræðimenn eru feimnir við að geta sér til um uppruna þess eða merkingu. Eins gott að við þurfum enga sérfræðinga til að segja okkur hvað jólin merkja. Við vitum það. Við erum ekki bara að halda upp á það að ákveðnu hringferli í gangi himintunglanna sé lokið, jarðarinnar á sporbaug sínum um sólina, með hækkandi sól til merkis um að vetrargangan langa frá hausti til vors sé rúmlega hálfnuð. Við notum þessi tákn náttúrunnar, sigur ljóssins á myrkrinu, til að minnast þess þegar Jesús Kristur kom í heiminn, ljós vonar og kærleika sem sigraði myrkur ótta og vonleysis. Frásögnin af því hefur varðveist frá fyrstu öld okkar tímatals. Hún er líka hlaðin táknum. Þrír vitringar, handhafar mannlegrar visku og þekkingar, leggja heiminn að fótum lítils barns í formi gulls, reykelsis og myrru. Guð sjálfur ávarpar mennska menn í gegn um sendiboða sína, himneska engla, og það var ekki rjómi samfélagsins sem fékk skilaboðin, ekki þotulið þeirra tíma, ekki yfirstéttin, ekki prestastéttin, ekki stjórnmálastéttin, heldur fjárhirðar úti í haga, sem voru svo lágt settir að vitnisburður þeirra var ekki einu sinni tekinn gildur fyrir dómi. Reyndar er áhugavert að lesa Nýja testamentið með það í huga hverjum Jesús treystir fyrir fagnaðarerindinu. Það eru ekki broddborgararnir, heldur konur, börn og fáráðlingar.

Og skilaboð Guðs til manna eru þessi hughreysting: „Verið óhræddir.“ Vonin er komin í heiminn. Sá sem trúir því hefur sannarlega enga ástæðu til að óttast.

Við verðum flest óskaplega íhaldsöm á jólunum, höldum fast í siði og venjur – ekki síst matarvenjur. Það þarf engan að undra enda eru jólin, þ.e. hátíðahöld um þetta leyti árs, sennilega ein fyrsta siðvenja mannkynsins, ef ekki sú al-elsta. Ekkert af því sem við þekkjum og könnumst við var til þegar forfeður okkar í árdaga mannkynsins fögnuðu því að vetrarmyrkrið var tekið að hopa fyrir dagsljósinu, fet fyrir fet dag frá degi. Sennilega myndu þróunarlíffræðingar súpa hveljur ef ég héldi því fram að það væri orðið okkur mönnum eðlislægt að halda jól, það væri á einhvern hátt gróið inn í litningana sem við fengum í arf frá þeim kynslóðum kynslóða sem haldið hafa einhvers konar jól á undan okkur. En jólin eru arfur, menningararfur sem nær lengra aftur en mannkynssagan nær að greina frá og trúararfur í 2000 ár. Vetrarsólstöðuhátíðin hefur öðlast aukið innihald og vægi, andlegt og trúarlegt.

Við eigum sælar minningar um okkar bernskujól og viljum gefa börnum okkar sömu minningar. Það er fallegt. Aftur á móti er mörgum kannski eilítið erfiðara um vik að gera það núna en oft áður. Það er ekki alls staðar hægt að halda jól með sama glæsibrag, með sama íburði og af sama neyslustigi og við eigum að venjast. Það er hart í ári. Víða. Um það bera biðraðir eftir matargjöfum vott. En margir þeirra, sem ekki þurfa hjálp samfélagsins til að sjá sér og sínum farborða frá degi til dags, þurfa líka að herða sultarólina um þessar mundir. Það má lifa við það. En vegna þessarar íhaldsemi, vegna þess að á jólunum á allt að vera eins og það hefur alltaf verið, þá verður skorturinn kannski sárari þegar það er ekki hægt. Breyttar efnahagslegar forsendur eru farnar að hafa áhrif á það sem okkur er heilagt – jólahald fjölskyldunnar.

Þá er gott að hugsa til þess að jólin eru ekki um það. Jólin eru ekki um ytri hefðir, hvorki hangikjöt né rjúpu. Jólin eru ekki um nýjustu bókina hans Arnaldar, sem kostar um 4000 krónur á sérstöku tilboðsverði, hvað þá um skíðaferðina til Austurríkis eða golfferðina til Flórída, sem einhvern tímann kann að hafa komið upp úr jólapakka – og síðast í fyrra var auglýst í sjónvarpi sem tilvalin jólagjöf. Nei, jólin eru um ljósið, ljós vonar og kærleika sem kom í heiminn og hrakti á brott myrkur ótta og vonleysis. Jólin eru um von.

En um hvað er vonin? Von um hvað? Betri tíð með blóm í haga? Já, vissulega. Í vísindalegri merkingu. Vetrarsólstöður eru jú vísbending um að jörðin snúist sinn vanagang um sólina og það þyrfti svo stjarnfræðilega einstæður atburður í sögu reikistjörnunnar að eiga sér stað til að koma í veg fyrir að það vori í maí að nánast er hægt að ganga út frá því sem gefnu að svo verði. Það er eiginlega ekki lengur von, þótt það hafi kannski verið það í árdaga mannkynsins, heldur vissa byggð á þekkingu.

Er vonin um betri heim? Við verðum að fara varlega í slíkar fullyrðingar. Minnumst þess að ríki Krists er ekki af þessum heimi. Hvað meinum við með „betri heimi“? Misskipting auðs í heiminum er slík að það væri ekki endilega vísbending um að heimurinn færi batnandi að íslensk jól að hætti ársins 2007 yrðu aftur sjálfsögð, heldur einmitt um hið gagnstæða.

Sumt óréttlæti er þess eðlis að það verður ekki leiðrétt í þessum heimi. Það væri ábyrgðarleysi að lofa öðru. Það er óþarfi að taka mjög dramatísk eða voveifleg dæmi um það, náttúruhamfarir eða slys. Það nægir aða hafa hugfast að fjöldi Íslendinga berst nú í bökkum fyrir þær sakir einar að hafa farið að ráðleggingum og fylgt þeim leikreglum sem samfélagið setti. Hverju getum við lofað þeim? Hvernig líður þeim sem beittur er óréttlæti, en trúir því að réttætið muni sigra að lokum hérna megin grafar, þegar það síðan gerist ekki? Með þeim boðskap erum við að segja honum að það sé í raun réttlátt hvernig fyrir honum er komið, að hann eigi ekki betra skilið. Óréttlætið sem hann er beittur verður verður þá makleg málagjöld hans fyrir syndir hans og óverðugleika – á sama tíma og þeir sem mesta ábyrgð bera á ástandinu lifa í vellystingum praktuglega lausir allra mála. Nei, við getum ekki lofað neinum réttlæti í þessum heimi. Enda var réttlæti, þótt það væri boðskapur Krists, ekki reynsla hans af heiminum.

En við verðum líka að fara varlega í þessa átt. Það er ekki heldur boðskapur Krists að maður eigi að láta allt yfir sig ganga möglunarlaust án þess að bera hönd fyrir höfuð sér í sælli vissu þess að með þjáningunum séum við að borga fyrir himnavist að jarðvistinni lokinni. Því meiri þjáning í þessu lífi, þeim mun magnaðari himnasæla að því loknu. Þennan boðskap kalla enskumælandi menn gjarnan: „There‘s a pie in the sky when you die.“ Þessi skoðun ber í bætifláka fyrir óréttlætið. Misréttið verður verkfæri Guðs til þess að þeir sem fyrir því verði fái betur „í gullsölum himnanna gist“ svo vitnað sé í skáldið. Það er ömurlegur útúrsnúningur á kristnum kærleiksboðskap.

Jesús Kristur tók sér alltaf stöðu með þeim smáðu og þjáðu, með fórnarlömbum gegn gerendum, með hinum útskúfuðu og kúguðu gegn valdníðslu og kúgun. Að því leyti var boðskapur hann rammpólitískur. Kristnir menn geta ekki og mega ekki veigra sér við því að taka upp það merki. En Jesús var ekki pólitíkus. Þegar Jesús boðaði bandingjum lausn var hann ekki að tala um afnám þrælahalds eða breytt þjóðskipulag. Það var annars konar lausn sem hann var að boða, lausn undan ótta, vonleysi og tilgangsleysi til vonar, kærleika og einhvers sem í dag væri sennilega kallað „mannleg reisn“. Í því felst að hver einasti einstaklingur hefur sérstakt manngildi, gefið af Guði, sem enginn mannlegur máttur hefur rétt til þess að umsnúa eða draga úr. Sem enginn mannlegur máttur hefur getu til þess að gera að engu. Gildi þitt sem manneskju fer ekki eftir því hvort þú átt eða skuldar, hvort þú ert frjáls eða ófrjáls í einhverri merkingu. Þú ert einstakt og elskað sköpunarverk Guðs eins og þú ert, hvort sem þú býrð í 30 fermetrum eða 300. Þú ert óendanlega dýrmæt(ur). Gildi þitt sem manneskju fer ekki eftir veraldlegum kringumstæðum þínum. Það er boðskapur Krists, en hvorki að Guð hafi hönd í bagga með málefnum þessa heims og sjái til þess að allt fari vel, né að því ömurlegra sem lífið sé þeim mun meiri velþóknun hafi Guð á þér.

Jólin eru von um betra líf. Ekki meiri lífsgæði í veraldlegri merkingu, ekki von um líf sem er laust við harm og missi, erfiðleika og mótllti sem er óaðskiljanlegur hluti hins mannlega hlutskiptis. Það er ekkert eðlilegt við slíkt líf.

Nei, jólin eru von um líf í kærleika. Guð er kærleikur. Guð gerðist maður í Kristi og hann bjó meðal okkar fullur náðar og kærleika. Guð er með okkur. „Imm-anú-el“ eins og sagt er á hebresku og hér var sungið áðan; „ Ver með-okkur-Guð“. Og hann er með okkur alla daga allt til enda veraldarinnar. Ef við tökum þá ákvörðun að trúa því þá getum við tekið við jólunum í hjarta okkar hvernig sem árar. Vonin er um líf sem er þrungið tilgangi og merkingu. Og í þeirri von er ekki erfitt að taka við boðskap jólanna, mesta fagnaðarefni … nei, „fagnaðar-erindi“, sem mönnum hefur verið flutt: „Verið óhrædd.“

Gleðileg jól.