Jólapistill Bjarna Jónssonar tenórs í KÓSÍ jóladag 2015

Jóladagsspjall: 25. Des.  Messa í Óháða

Gleðilega hátíð kæru vinir.

Í desember 1913. birtist eftirfarandi auglýsing í einu bæjarblaðanna á Ísafirði:

Baðhús Ísafjarðar er opið alla virka daga kl. 5- 9 síðdegis.

Á Þorláksdag er opið kl 9 f.h. til  11 e.h. og á aðfangadag jóla frá kl  11 f.h. til kl  3 e.h.

Þeir sem ætla að baða sig fyrir jólin ættu ekki að draga það til síðustu daga.

Séra Pétur stakk að mér fyrir nokkru síðan hvort ég væri til í að flytja tölu hérna í messu á jóladag. Þó mér fyndist þetta fráleitt í fyrstu lét ég tilleiðast ekki síst vegna þess að Kristinn vinur minn stóð í þessum sporum um síðustu jól.

Ég hamaðist við að glósa einhver ósköp—Notaði síðan lítið sem ekkert af því en ákvað þess í stað  að tala aðallega um sjálfan mig.

En fyrst smá Lofsorð eða Bæn:

  • Hann sem í heimi öllu ann,
  • hug þinn og öndu þvær.
  • Réttu fram arminn og finndu hann.
  • Sá fúslega leiðsögu ljær.
  • Herrann hæsti gaf jörðu von.
  • Höndin hans mild oss leiðir.
  • Okkur sendi sinn einkason,
  • sem vörn gegn öllu er meiðir.
  • Nú er aðventan að baki og jólin brostin á.

Aðventan er tími eftirvæntingar og tilhlökkunar,
bið eftir komu jólanna.
Hún er einnig   upphaf nýs kirkjuárs.
Kertin fjögur á aðventukransinum eru tákn um:
frið,  trú, kærleika og  von
og það er einmitt vonin sem er hinn sanni ljósberi
og lýsir okkur veginn til friðarins, trúarinnar  og kærleikans.

Boðskapur jólanna er einmitt allt þetta,
– einfaldur og skýr.

Það var einmitt á aðventu árið 1953 sem ég  sex ára grei  lenti á spítala mikið veikur og þurfti að dvelja þar í þrjá mánuði m.a. yfir jól. Á þessum árum voru heimóknartímar á spítlana mjög takmarkaðir, mig minnir bara klukkutími einu sinni á dag.  Ég var yngstur allra sjúklinga þarna og algjört dekurdýr starfsfólks og í uppáhaldi hjá þeim sjúklingum sem þoldu mig. Ég var þannig á mig kominn að það þurfti að bera mig, gat ekki og mátti ekki ganga í tvo mánuði.  Á aðfangadag var alveg gasalega góður matur og svo risalamande eða eitthvað svoleiðis . Eftir matinn kom öll starfsmannahersingin brosandi á stofuna með einhvern böggul, ég man að þau spurðu mig hvort ég hefði ekki borðað grautinn, ég játti því,  var eitthvað í honum sem þú tókst út úr þér.  Neeei hverskonar spurningar voru þetta, skildi bara ekkert í þeim. En loks játuðu þau að  hafa vitað af möndlu í grautnum, sem ég hefði sennilega étið óviljandi án þess að taka eftir og ætti  að fá möndlugjöfina.  Þannig var nú reynt að gera allt fyrir litla dekurdýrið til að gera dvölina léttbærari bæði um jólin og alltaf.

Samfélagið hefur tekið miklum breytingum á  ekki lengri tíma en Ca. hálfri öld.  –

Ég var sendur í sveit 1954 til vandalausra, aðeins sjö ára trítill. Fyrsta sumarið  var ég í nærri fimm mánuði  frá byrjun maí til loka september.

Allar samgöngur við sveitirnar fóru  sjóleiðina með Djúpbátnum Fagranesi. þá voru engir vegir komnir nema norðanvert í Djúpinu á innanverða Snæfjallaströnd.     Tvisvar í viku var róið fram á fjörð í veg fyrir Bátinn með mjólkina á brúsum og tekið til baka öll aðföng og tómir brúsar .  Beið ég þá spenntur hvort ekki kæmi bréf eða glaðningur frá bræðrum mínum að heiman.

Ég var eina barnið á þessum aldri á bænum og enginn til að leika við og ekki gagnaði neitt að skæla eða vorkenna sér, það var nú eiginlega enginn að halla sér að  – þannig séð-  – þó að fólkið væri mér fjarska gott.

Þannig varð ég að sinna mér sjálfur með leiki og afþreyingu ef einhver tími féll frá verkum.   Lék með leggi, skeljar og nýtti mér glerbrot og annað, þið kannist við þetta sum.  Reisti mér útihús og litla bæi með girðingum í kring úr torfi og grjóti

Ég hafði  ákveðnar skyldur m.a. að reka og sækja beljurnar og jukust  kröfur um vinnuframlag með aldrinum. –  Allir lögðu sig fram um vinnu eins og hver gat,  börn líka. – Þetta þekkja þeir sem aldir eru upp í sveit, allavega á þessum árum.

Ekki var nú vélum til að dreifa. Fyrstu þrjú sumurinn voru einungis hestar notaðir þar sem hægt var,  en svo var bara handaflið.

Tíu ára átti ég eigið orf og ljá og var þá líka farinn að taka þátt í mjöltum  – Fjórða sumarið kom lítill traktor, var það algjört heljarstökk inn í nútímann.

Eitt sinn á þriðja sumrinu mínu á bænum þá níu ára gamall spurði ég bóndann hvort ég gæti fengið lambskrokk fyrir sumarverkið.. – Ég gerði  mér þá enga grein fyrir í mínum barnaskap hversu fátækt þetta fólk var.

-Sagði að mig langaði að gefa mömmu hangikjöt  í jólagjöf. Hann sagði mér að hann skyldi líta til  með reykingu þegar haustaði  hann ætti  ekki þurrkað tað og mó fyrr en í lok sumars. –  Ég fékk  minn lambskrokk.

Já vel á minnst, þarna var ekkert rafmagn og ekkert rennandi vatn í húsi svo meira að segja náðhúsið var af gömlu gerðinni.

Fólkið þurfti að vera bæði nægjusamt og sjálfu sér nægt um allt sem gera þurfti,  hvort það var að lagfæra húshleðslur, lækna beljur og rollur og svo það sem mér fannst alltaf skemmtilegast,  bátasmíði og viðgerðir á þeim. –  Þetta voru súðbirtir smábátar (skarsúðaðir) sem stundum þurfti að ditta að,  gera við birðing eða endurnýja bönd.  – Þetta fékk ég að hjálpa til við, bæði hnoða og stundum höggva til spítur og held hreinlega að ég hafi lært mikið í smábatasmíði af þessu.  Það voru einungis örfá handverkfæri notuð við þetta en ekkert vélknúið.

– Grjótveggjahleðslu lærði ég ágætlega og hvernig á að byggja undir hlaðna veggi,  bæði sem húsveggi en mest girðingarveggi. Þarna er frá náttúrunnar hendi alveg frábært efni til veggjahleðslu, grágrýtis flöguberg og nóg af því.

– Af nógu er að taka og margt kemur upp í hugann en læt þetta nægja um sveitadvölina, en þar leið mér yfirleitt vel.

Þarna var ég í sex sumur eða fram að fermingu og fór þess vegna algjörlega á mis við fótbolta og aðra leiki jafnaldra minna á mölinni en lærði þess í stað margt og  mikið til ýmiskonar verka og sjálfbjargarviðleitni .

– Vorið sem ég fermdist þá 14 ára  labbaði ég mig niður á bryggju að falast eftir plássi á  skakbát  og fékk. Það þótti allt í lagi og var ekkert einsdæmi á þessum tíma og var  heldur ekki búið að banna börnum og unglingum að vinna þá – Sjóinn sótti ég í fjögur sumur eða öll sumrin meðan ég var í gagnfræðaskóla.  – Mér hafði boðist vinna í verslun en þáði ekki.

– Ég var þarna um borð við þriðja mann. –  Hinn hásetinn var mikill drykkjumaður og var í öll skiptin dröslað um borð útúrdrukknum, en var orðinn góður eftir nokkra klukkutíma. Ég man að fýlan af honum  í lúkarnum var ógeðsleg.

– Skipstjórinn var öðlingur sem datt ekki í hug að losa sig við kallinn, enda gæðakall og góður sjómaður. –  Leyfði honum bara að sofa úr sér á útstíminu. Báturinn var fimm tonna dekkuð súðbirt trylla,  svo ljót fannst mönnum, að hún gekk alltaf undir nafninu Grýla.  –  Þetta  fyrsta sumar mitt á sjó árið 1961   endaði nú hálfbrösuglega.

Það var upp úr miðjum ágúst að við vorum staddir í góðu fiskeríi djúpt út  og austur af Hornbjargi Ca. 13 mílur frá landi.

– Ætluðum þá í birtuskilunum  að kippa uppundir eins og það er kallað,  keyra inn á Víkurnar fyrir dimmu,  þar sem spáin gerði ráð fyrir stinningskalda.

– Það var alltaf drepið á vél á þessum minni bátum  og látið reka við veiðarnar.

-Ekkert gekk að koma vélinni í gang og rafgeymirinn tæmdist.

-Við  vorum   töluvert utan  siglingaleiðar. – Okkur rak þarna um úthafið og höfðum okkur fátt til bjargar, því enginn fjarskiptabúnaður var í bátnum og engin neyðarblys, rakettur eða þesskonar lúxus sem seinna varð skylda auk björgunarbáts sem ekki var heldur til staðar.

– Þegar dimma tók hnýttum við saman öll prik og stengur sem við fundum um borð og vöfðum olíubleyttum ullarsokkunum okkar á endann, kveiktum í og veifuðum .  Fyrir einhverja algjöra tilviljun og árvekni vakti þetta skrítna ljósflökt athyggli sjófaranda sem var á leið austur úr, þó nokkuð fyrir ofan okkur og ákvað sem betur fer að skoða þetta.  Þá vorum við búnir að vera á reki bjargarlausir í sex eða sjö tíma minnir mig.   Þeir gátu hjálpað okkur að koma vélinni í gang.  .

Við fórum inn á Hornvík, vissum þar af dragnótarbát sem við vildum freista að  verða samferða heim á leið   fyrir -Víkurnar og – Nesin og helst inn á Djúpið. –  Í birtungu kom í ljós  vélarbilun hjá okkur og frussaðist út úr einu dexeli olíublandað vatn.  – Þeir hengdu  okkur  því aftaní en hugðust halda áfram veiði á Aðalvík og fóru ekki lengra að sinni.

Þannig að við freistuðum  þess að fara áfram heim á biluðu vélinni . Venjulega var þetta rúmlega þriggja tíma stím á svona bátskel. Við vorum nærri tvöfaldann þann tíma, en komumst þó að lokum til Ísafjarðar.

-Við vorum með fullan bát af góðum fiski tæp fjögur tonn. En allur fiskurinn varð ónýtur af mengun frá biluðu vélinn.

Þannig fór um sjóferð þá.

Mig langar að flakka  aðeins  um tíman m.a. að jólunum  upp úr miðri síðustu öld .

Skreytigleði okkar barnanna á þessum árum fékk heilmikla útrás fyrir jólin . Alskyns bréfaskraut, kúlur og krullur var búið til úr marglitum kreppappír, sellófan og öðru tilfallandi efni. Hengt upp út um öll loft og veggi. Svo var greni greinum stungið  alls staðar sem hægt var.

Reyndi þetta svolítið á  þolinmæði mæðranna  sem var greinilega mikil.

– Móðir mín sem var fædd 1913  naut nánast engrar menntunar frekar en önnur börn snauðra á þeim tíma.  – En þrátt fyrir það tel ég hana að mörgu leiti vel menntaða og upplýsta, því hún las mikið og hafði ótrúlegt minni .

– Þessa nutum við krakkarnir og var nánast sama hvað við spurðum um , komum  aldrei að tómum kofanum .

Bara að ég kynni nú eitthvað þó ekki væri nema brot af ljóðum og  sögum, sérstaklega sögum af fólki frá þessum fyrstu árum aldarinnar sem hún sagði okkur svo oft um.

– Hún var held ég mjög trúuð og máttum við aldrei fleipra með Guðs orð og leggja það við hégóma. – Hún fór með bænir með okkur fyrir svefninn og vildi að við færum síðan inn í nóttina eins og hún kallaði það -án fíflaláta-.

Konur kepptust við að baka þá eins og nú .

En þetta var nú ekki það eina sem þær afrekuðu.

– Það var talið nauðsynlegt að allur krakkaskarinn væri sæmilega til fara um jólin. þess vegna lögðu þessar konur nótt við dag að sauma  flíkur. Ekki var alltaf peningur til að kaupa ný efni sem auk þess fengust oft ekki í búðinni. Oftar en ekki var  gripið til eldri fata sem búið var að leggja, sprett upp og efni notað aftur.

Oft hef ég velt fyrir mér hvenær þessar manneskjur hvíldust.

– Á þessum tímum var  nú ekki alveg eins flókin matseld um jólin .

–  Á Þorláksmessu var borðuð skata sem pabbi verkaði venjulega sjálfur.

Eftir skötusuðuna sem fyllti hýbýlin af sérstakri lykt var hangikjötið soðið og deyfði það nokkuð lyktina, trúði fólk.

– Í hádeginu á aðfangadag var alltaf borðuð köld skötustappa sem margir kannast við. Hún er búin til úr afganginum  af skötunni frá deginum áður,  kartöflum og miklu mörfloti. Allt þetta er sett í mót og látið kólna, storkna saman, sneitt niður og borðað  með rúgbrauði.

-Að kvöldi aðfangadags var annaðhvort á borðum ofnsteikt lambalæri eða svið. En ef sviðin voru á aðfangadagskvöl þá var lambalærið á gamlárskvöld  og svo alltaf hangikjöt á jóladag. Einnig var alltaf möndlugrautur eins og vera bar.  – Seinna um kvöldið var drukkið heitt súkkulaði og borðaðar kökur.  Þarna í sögunni voru mörg ár í að sjónvarpið kæmi.

– Stundum var spenna af allt öðrum toga og orsökum. -Því ef veður var slæmt, hríð og frosthörkur þá fór rafmagnið oft af og engum fagnaðarefni þegar það gerðist um jól og setti allt úr skorðum . Ekkert spennandi að halda jól með prímus .

Gjafir voru nú oft ekki miklar né dýrar en reyndum við þó krakkarnir að aura fyrir einhverju með því að bera út og selja blöð. Við gerðum líka dálítið af því að hnýta öngla á tauma fyrir fiskibátana og fengum aur fyrir.  Bjuggum líka  stundum til gjafir handa hvert öðru.

Við vorum svo lánsöm krakkarnir á Ísafirði að geta valið um margar kirkjur. Mörg okkar þar á meðal ég sóttum þær allar að einhverju marki.

Á sunnudögum byrjuðum  við alltaf  kl 11.  í Salem sem er Hvítasunnukirkja, áttum þar  góða vini sem sumir voru jafnframt foreldrar leiksystkina okkar. Eða hjá séra Sigurði ef barnamessa var. Svo var endað á samkomu í Hjálpræðishernum kl 2. En í báðum þessum fríkirkjum var alltaf mikill og líflegur söngur sem við krakkarnir tókum hressilega þátt í.

-Herinn var jafnframt griðarstaður og tómstundaheimili okkar, þar sem Her-púturnar eins og við krakkarnir kölluðum þetta yndislega, velviljaða, hjartahlýja fólk stundum,  var með opið hús einusinni til tvisvar í viku . Þar var ýmislegt gert, spjallað saman, lesið,  farið í leiki og teiknað, föndrað og  margt fleira.

– Margar eru þær ljúfu minningar.

-Kæru vinir, brátt fer sól að hækka á lofti.  Eftir mikið annríki jólanna er gott að  hugsa til þes að næstu mánuðir eru eins og vakning jarðarinnar.

Smátt og smátt í litlum skrefum fyrst,  svo með auknum hraða hopar skammdegismyrkrið,  dagarnir lengjast og fer að sjást meira  til sólar.

Ég óska ykkur gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.