Ræða Helgu Hansdóttur á jóladag 2016

  Gleðileg jól ágætu kirkjugestir.
  Ég tel það mikla gæfu að hafa alist upp í sveit. Fallegri sveit nálægt Reykjavík. Það eru fjöll á þrjá vegu Meðalfellið í norður þar var leiksvæði okkar krakkana, Eyjafellið í austur þar fórum við í berjamó og Esjan í suður á bak við hana var Reykjavík. Í björtu veðri blasir svo Snæfellsjökull við í vestri. Ég varð fyrir sárum vonbrigðum þegar ég varð vör við að turnarnir á Járnblendi-verksmiðjunni á Grundartanga skyggja nú á jökulinn.
  Þegar ég man fyrst eftir mér voru störfin í sveitinni öðruvísi en nú. Það var ekkert rafmagn og varð að handmjólka kýrnar. Mjólkin síuð á sigti sett í brúsa og kæld í læk. Mjólkurbíllinn kom daglega og sótti mjólkina. Hann kom ekki heim á bæina og urðu bændurnir að koma henni í veg fyrir hann. Mest öll heyvinna var unnin á hesti eða í höndunum. Það var til traktor sem túnið var slegið með. Það þurfti að snúa með hrífu, raka saman í múga og síðan setja heyið í hrúgur. Heyinu var mokað á heyvagn með kvísl og að síðustu mokað inn í hlöðuna. Það létti mikið heyskapinn 1955 þegar faðir minn keypti nýjan og fullkominn traktor. Við hann var hægt að tengja vél sem sneri heyinu og önnur sem rakaði í múga. Það fylgdi líka með honum tæki sem hægt var að ýta múgunum saman í hrúgur og lyfta einu í heilu lagi upp á heyvagninn.
  Þar sem ekkert rafmagn var voru engar vélar til að létta heimilisstörfin. Það varð að vinna allt í höndunum. Kökur hrærðar í skálum með sleif, brauðið var bakað heima og var það hnoðað á borði. Eldavélin var Aga vél sem kynt var upp með kolum eða koksi og á henni var maturinn eldaður og kökurnar bakaðar. Hvíta þvottinn þurfti fyrst að leggja í bleyti til að losa um mestu óhreinindin, þvo á bretti og var svo að lokum soðinn í þvottapotti og þurrkaður úti á snúru. Það fór allur dagurinn í þvottinn. Fatnaður var saumaður heima á fótstigna saumavél. Ljósin voru olíulampar og voru lugtir notaðar í fjós og fjárhús. Þessar aðstæður kölluðu á margt fólk og voru sveitaheimilin mannmörg. Börn úr Reykjavík voru send í sveit á sumrin og skólafólk kom í sumarvinnu við heyskapinn.
  Nú er öldin önnur. Rafmagnið kom rétt fyrir jólin 1958 og þá komu rafmagnstækin til að létta störfin. Öll heyvinna er unnin með stórum vélum og rúllur með allavega litu plasti skreyta túnin á sumrin. Mjaltavélar eru til að mjólka kýrnar, vélar til að moka flórinn, gefa heyið og fleira. Börn koma ekki lengur til sumardvalar og fjarlægjast dýrin og átta sig ekki á hvaðan matvörurnar koma svo sem kjöt, mjólk og egg. Það er ekki heldur þörf á eins mörgu fólki við heyskapinn.
  Undirbúningur jólanna var mikill. Það þurfti að gera öll herbergi hrein. Taka til í öllum skápum og skúffum. Þurrka ryk af bókum, myndum og skrautmunum. Það var líka lagað til á geymsluloftinu og tekið frá það sem nota mátti í brennu á gamlárskvöld. Um hátíðir var sparistellið notað og var það þvegið til þess að það væri tilbúið til notkunar. Margar smákökutegundir voru bakaðar svo sem sprautukökur, gyðingakökur, hálfmánar, vanilluhringir, rúsínukökurog fleiri allt að átta til tíu tegundir. Þá voru líka bakaðar bæði hvít og brún randalína ásamt rjómatertum. Allir urðu að fá nýja flík fyrir jólin. Enginn mátti fara í jólaköttinn. Saumavélin var í notkun allan daginn. Náttföt á alla, kjóla og kápur á stelpurnar og buxur á strákana. Á aðfangadag var jólatréð skreytt. Það var læst inn í stofu og ekki mátti sjá það fyrr en um kvöldið. Það var með lifandi kertum og var bara haft kveikt á þeim þegar verið var í stofunni. Jólamaturinn var steikt lambalæri með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og sósu. Það var borðað klukka 16. Eftir matinn var farið í fjósið og mjólkað. Þegar fjósverkum var lokið fóru allir í sparifötin. Áður en farið var inn í stofu og pakkarnir voru opnaðir var drukkið súkkulaði með rjóma og smákökur borðaðar. Loksins eftir langa mæðu kom að því að stofudyrnar voru opnaðar. Við byrjuðum á því að ganga í kringum jólatréð og syngja. Þá var sungið „Nú er hún Gunna á nýju skónum“ „Bráðum koma blessuð jólin“ „Jólasveinar einn og átta „Heims um ból“ og fl. Ég man ekki eftir að jólapakkarnir væru margir en alltaf var bók í pakka. Þegar allir höfðu opnað sínar gjafir var sest við að lesa bækurnar. Áður en við fórum að hátta fengum við epli eða appelsínu. Ávextir fengust ekki nema fyrir jólin á þessum árum og kom jólailmur í húsið þegar kassarnir komu úr Reykjavík. Það var ótrúlegt hvað þeir voru fljótir að tæmast. Rafmagnið var frekar óstöðugt á þessum fyrstu árum. Það fór oft ef hvasst var og einnig ef það var mikið álag. Það fór eitt sinn á aðfangadag á meðan við borðuðum og kom svo smá stund einmitt þegar sunginn var sálmurinn „Heims um ból“ í útvarpsmessunni. Messað var á Reynivöllum á jóladag og nýársdag. Þar sem ekki var neinn bíll á heimilinu var ekki farið oft til kirkju fyrr en systur mínar byrjuðu að syngja í kirkjukórnum þá fóru einhverjir fleiri af heimilinu með.
  Á milli jóla og nýárs hélt kvenfélag sveitarinnar jólatrés-skemmtun. Þar var dansað í kringum jólatré og ekki brást það að jólasveinninn kæmi í heimsókn. Hann sagði börnunum sögu, dansaði með þeim í kringum jólatréð og gaf að lokum öllum epli sem hann kom með í poka. Við hlökkuðum mikið til þessarar skemmtunar og urðum ekki fyrir vonbrigðum.
  Ég eignaðist bókina „Jólin koma“ eftir Jóhannes í Kötlum og fylgdist með þegar jólasveinarnir komu til byggða. Ég vissi úr hvaða gili Giljagaur kom úr Esjunni og hurðirnar skelltust mikið þegar Hurðarskellir var ferðinni. Ég sé líka fyrir mér hvernig trúin á jólasveinana hefur verið þegar ég kem í gamla bæinn í Árbæjarsafni.
  Ég þekkti ekki þann sið að setja skóinn út í glugga eins og börn gera núna. Þegar ég byrjaði að vinna í leikskóla töluðu kennarnir um að búa til jólaskó og skildi ég ekki hvernig þeir ætluðu að fara að því. Hvar þeir ætluðu að fá efni í þá og hvort foreldrar vildu þetta. Ég þorði ekki að spyrja neins. Mér létti mikið þegar ég komst að því að þetta voru skór sem börnin klipptu út í pappa, máluðu og skreyttur með bómull . Skóinn settu þau svo út í glugga og ef þau voru þæg og góð fengu þau eitthvað í hann frá jólasveininum.
Í nokkur ár fórum við með börnin í leikskólanum til kirkju. Þar var farið með jólaguðspjallið fyrir þau og stundum léku þau það. Við sungum líka jólalög. Nú er tíðin önnur ekki má lengur fara til kirkju með leikskólabörnin vegna þess að fámennur hópur hefur ekki áhuga á því. Í mínum leikskóla höfum við aðventustund á mánudögum á aðventunni kveikjum á kerti syngjum og tölum um kertið. Þetta ætlum við að gera áfram.
  Núna byrja jólin í IKEA í lok október. Jólaljós kveikt í byrjun aðventu og fólk skreytir þá heimili sín. Fötin keypt tilbúin og hægt að kaupa kökur í búð. Undirbúningurinn er allt öðruvísi en var en jólin koma alltaf á sínum tíma.
Takk fyrir.