Páskar í Óháða söfnuðinum

Dymbilvika og páskar eru á næsta leiti og munum við í kirkju Óháða safnaðarins fagna því hátíðlega að vanda. Við byrjum með fermingaguðsþjónustu á sunnudaginn kemur (14.4.).Á föstudaginn langa er kvöldvaka (19.4) þar sem Hannes Guðrúnarson ætlar að flytja okkur píslasöguna.  Morgunmessa er svo á páskadag þar sem við bjóðum upp á brauðbollur og heitt súkkulaði eftir messuna.

Kristján Hrannar kórstjóri og Óháði kórinn bjóða upp á veglegan tónlistarflutning yfir hátíðina í kirkjunni með nýtt og gamalt efni og Hlín Leifsdóttir sópransöngkona flytur okkur Bach á föstudaginn langa og á páskadag.

Hlökkum til að sjá ykkur í Óháðu kirkjunni yfir páskahátíðarnar.

Hér er svo smá fróðleikur um upphaf páskahátíðarinnar.

Hvað eru Páskar og hví eru þeir ekki alltaf á sama degi?

Páskar sem upphaflega kemur af hebreska orðinu pesaḥ eða pesach (פֶּסַח) sem þýðir „fara framhjá“, „ganga yfir“ en kemur inn í Íslenska málhefð í gegnum orðið pascha í latínu sem er sameiginlegt heiti á einni af aðalhátíðum í kristnum sið. Samkvæmt söguhefð gyðinga eiga páskarnir uppruna í útförinni af Egyptalandi (Exodus) þegar Móses leiddi Ísraelsmenn út úr ánauðinni hjá faraó, gegnum Rauðahafið og eyðimörkina í átt til hins fyrirheitna lands eins og sagt er frá í Biblíunni í 12. kapítula 2. Mósebókar.

Í flestum kristnum kirkjudeildum líkt og þeirri sem við fögnum í Óháða Söfnuðinum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana „Festum festorum“ eða hátíð hátíðanna.

Tilefnið er upprisa Jesú Krists sem reis upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann var krossfestur einhvern tíma á árabilinu AD 27 til 33. Samkvæmt frásögum í Nýja testamentinu (Matt. 26.-27. kap., Mark. 14.-15. kap., Lúk. 22.-23. kap. og Jóh. 18.-19. kap.) bar handtöku og krossfestingu Jesú upp á páskahátíð gyðinga. Páskalambið varð að tákni fyrir Jesú í hugum kristinna manna því honum var fórnað á sama hátt og lambinu.

Það er með öllu óvíst hvenær kristnir menn fóru að halda upp á páska. Í frumkristni var nefnilega sunnudagurinn haldinn heilagur til áminnis um upprisu Jesú enda hvíldardagurinn fluttur frá laugardeginum sem gyðingar höfðu og hafa enn sem hvíldardag.

Samkvæmt hefðinni og guðspjöllunum dó Jesús á föstudegi og reis upp frá dauðum á sunnudegi. Að öllum líkindum héldu þeir sem snúist höfðu til kristni í fyrstu söfnuðunum og ekki voru gyðingar ekki upp á páska. Samkvæmt kirkjusagnfræðingnum Socrates Scholasticus (fæddur ár 380) hófu kirkjudeildir að halda upp á páska einungis á einstaka svæðum og nefnir meðal annars að hvorki Jesús né postularnir hafi haldið upp á páska ekki frekar enn neinar aðrar hátíðir.
Þegar a annarri öld er hins vegar greinilegt að páskahátíðin var orðin föst í sessi. Í lok þeirrar aldar stóðu yfir miklar deilur um tímasetningu atburða þeirra sem páskarnir eiga að minna á. Það var ekki fyrr en við kirkjuþingið í Níkeu 325 sem samþykkt var að páskarnir mundu ekki fylgja tímasetningu páskahátíðar gyðinga heldur fylgja fullu tungli næst jafndægri á vori eftir allflókinni reglu.

Deila