Biblíudagurinn verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn 23. febrúar. Hið íslenska Biblíufélag var stofnað þann 10. júlí árið 1815 og er því elsta starfandi félag á Íslandi. Það var Skotinn Ebenezer Henderson sem átti frumkvæði að stofnun félagsins en með hjálp og stuðningi Íslendinga. Félagið var í höndum Íslendinga allt frá upphafi. Markmið félagsins er að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar. Biblían og boðskapur hennar hefur haft gríðarleg áhrif á menningu, gildi og sögu vestrænna þjóða. Biblían birtir okkur hver Guð er, skapari, frelsari og hjálpari. Kjarninn í boðskap Biblíunnar er Jesús sem bendir á góðan, kærleiksríkan Guð.
Á Biblíudaginn erum við hvött til að minnast þess í öllum kirkjum, kirkjudeildum og kristnum söfnuðum landsins, að Biblían er trúarrit kristinna karla og kvenna og minna okkur á mikilvægi þess að styðja við útgáfu Biblíunnar um ókomna framtíð. Það er hægt að gera með bæn, sjálfboðaliðastarfi og fjárstuðningi. Á Biblíudaginn er gott tækifæri til að taka samskot til Biblíufélagsins í öllum kirkjum landsins. Félagið er öllum opið sem vilja taka þátt í að stuðla að útbreiðslu Biblíunnar. Skráning í Biblíufélagið er í síma 528 4004 eða á heimasíðu félagsins hib@biblian.is. Á heimsíðu félagsins er hægt að nálgast frekari upplýsingar um félagið.